Ţú ert hér:Eftir New York

Ein göngusystirin lýsir upplifuninni á eftirfarandi hátt:

 

Það var einstakt ævintýri að taka þátt í þessarri göngu.

    Gönguhópurinn taldi 4800  manneskjur sem allar tóku þátt á sínum forsendum, með það sameiginlega markmið að stöðva landvinninga brjóstakrabbameins. Auk göngufólksins studdu 1500 sjálfboðaliðar við framkvæmd göngunnar, og eru þá ótaldir allir þeir sem stóðu á götuhornum og veifuðu og hvöttu áfram þá sem þrömmuðu um göngustíga og götur, og ótaldir stuðningshópar eins og þeir sem fylgdu okkur dyggilega alla leið að heiman, og sátu fyrir okkur hér og þar á leiðinni. Í ár var metþáttaka, 1200 fleiri einstaklingar sem gengu í stað 3500 á síðasta ári. Skipulagið leið eilítið fyrir þennan fjölda, og klikkuðu framkvæmdaaðilar á því að láta þá sem gengu heilt maraþon leggja af stað á undan þeim sem gengu hálft maraþon, því fyrstu klukkutímana einkenndist gangan af því að maður allt að því gekk á hælunum á næsta manni fyrir framan, þar sem víða var einstigi eða þröngar gangstéttar, og mikill tími fór í að bíða eða rölta í troðningi. Margir gengu í minningu fallins ástvinar, og báru myndir og áletranir í þá veru á bakhliðum klæða sinna. Mér fannst þessir fyrstu klukkutímar einna erfiðastir, því í troðningnum datt maður svolítið í að lesa þessar áletranir. Ekki alveg í anda krafts og kjarks þessa fólks að hafa tárin trillandi niður ókunnugar kinnarnar.
    Margir gengu í þakklæti yfir því að hafa bjargast frá krumlu brjóstakrabbameins, eða í þakklæti yfir því að ástvinur hafði náð bata. Margir sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð, gengu fullir af baráttuvilja og aðrir vegna ástvinar í meðferð. Í göngunni hitti maður líka fólk sem gekk vegna þess að málefnið var gott, án þess að það hefði haft persónulega reynslu af því.
    Í flugstöðinni heima hitti ég tvo skólabræður nokkurra okkar í gönguhópnum, og sníkti af þeim aðdáun. Annar þeirra kvaðst frekar hefði skrifað tékka, en að leggja allt þetta á sig. Það er auðvitað mikilvægt og dýrmætt að styðja málefnið, því án fjármuna verða engar rannsóknir á nýjum lausnum stundaðar. En það var eitthvað alveg sérstakt að ganga sér til húðar fyrir þetta málefni. Það var dýrmæt reynsla, sem ég hefði ekki viljað missa af. Reyndar fannst mér það líkjast því að fæða barn. Maður er ekki viss um að komast í gegnum það, en svo hefst það á endanum, og innan skamms jafnar maður sig og líkaminn kemst aftur í samt lag. En maður er ekki samur, eitthvað hefur gerst sem hefur bætt við litinn í sálinni og gert mann að betri manneskju. Nándin í gegnum þessa reynslu, bæði við vinina og göngufélagana sem maður fór út með, og einnig við ókunnugt fólk í sömu “þrautagöngu” hefur skilað einhverju einstaklega dýrmætu og ég vona að orkan sem við þetta skapaðist skili sér líka í einhverju cosmísku samhengi.

    Ég þakka fyrir að hafa fengið að taka þátt í AvonWalkForBreastCancer í New York, helgina 6.-7.október síðastliðinn og þakka göngusystrum mínum og stuðningsliði fyrir ómentanlegar minningar.
    Megi sigur vinnast á krabbameini sem allra, allra fyrst.

  RJJ