Ţú ert hér:Gangan í New York

Þá erum við komnar heim eftir ómetanlega reynslu og upplifun. Allar komum við heilar á áfangastað, nokkrar blöðrur og einhver bólgin hné og ökklar en ekkert alvarlegt. Við vorum í raun í ótrúlega góðu formi allar og sumar komu sjálfum sér og öðrum á óvart! Allar æfingagöngurnar í sumar skiluðu sér svo sannarlega. Þetta var á köflum erfitt en gleðin, samhugurinn og stemningin sem ríkti og allt skemmtilega samferðafólkið létti gönguna.

 

Á laugardeginum fórum við frá Pier 84 á Manhattan og þaðan sem leið lá ‘niður’ eftir götum og hverfum Manhattan, yfir Manhattan Bridge og yfir til Brooklyn, til baka yfir Brooklyn Bridge og ‘upp’ Manhattan aftur í gegnum fleiri hverfi og götur.

 

Síðan yfir George Washington brúna og yfir New Jersey þar sem gist var í tjaldbúðum í Mackay Park í Engelwood. Þar sem annars staðar voru gerðar teygjuæfingar til að koma í veg fyrir stirðleika.

 

Á sunnudeginum var gengið aftur til baka yfir George Washington brúna og síðan eftir göngustíg meðfram Hudson ánni aftur að Pier 84 þar sem magnþrungin lokaathöfnin fór fram.